Varað við hættu við háspennumannvirki vegna svif- og skíðadreka


15.04.2014

Framkvæmd

Vegna vaxandi notkunar svokallaðra skíðadreka hérlendis - til að draga skíða- og brettafólk yfir snævi þakta grund - vill Landsnet vara við hættum sem geta skapast ef íþrótt þessi er stunduð of nálægt háspennumannvirkjum, sér í lagi háspennulínum.

Allir sem stunda svif- og skíðadrekasport þurfa að gera sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja því að fara of nálægt háspennumannvirkjum. Hvers konar snerting eða tenging við háspennulínu getur verið lífshættuleg og jafnvel orðið mönnum að aldurtila. Mikil hætt skapast t.d. ef tengilína svif- eða skíðadreka flækist í háspennulínum. Kann þá rafstraumur að hlaupa um tengilínuna, gegnum þann sem við hana er festur og miklar líkur eru á að slíkt valdi dauða viðkomandi. 

Hér er því um mikilvægt öryggismál að ræða fyrir alla sem stunda þessa íþrótt og brýnt að þeir velji sér helst leiðir þar sem ekki þarf að þvera háspennulínur. Ef þess gerist samt þörf þurfa viðkomandi aðilar að gæta þess að fella drekana sína tímanlega - og er eindregið mælt með því að nota þá ekki í minna en 100 metra fjarlægð frá háspennulínum. 

Þeir sem þvera háspennulínur án þess að fella drekann og pakka honum saman setja sig í mikla hættu. Verði óhapp við háspennumannvirki mega aðrir sem með eru í för undir engum kringumstæðum nálgast viðkomandi – nema tryggt sé að tengilínan við drekann hafi rofnað og sé þar af leiðandi ekki í snertingu við háspennulínu eða línur. Ef tengilínan hefur ekki rofnað verður strax að tilkynna óhappið til Neyðarlínu, í síma 112, eða til stjórnstöðvar Landsnets, sími 563 9401 eða 563 9402, lýsa atburðinum og aðstæðum og hlíta ráðleggingum um hvernig haga skuli viðbrögðum á vettvangi.

Hægt er að leita frekari upplýsinga um aðstæður á einstökum línuleiðum/svæðum með því að hafa samband við stjórnstöð Landsnets í áðurnefndum númerum eða með því að senda tölvupóst á netfangið stjornstod@landsnet.is.

Erlend mynd.

Aftur í allar fréttir