Nauðsynlegt er að styrkja meginflutningskerfi raforku á Íslandi og styrking kerfisins felur í öllum tilvikum í sér nauðsyn þess að styrkja tengingar milli Suðurlands og Norðausturlands.
Flestar eða allar aðgerðir vegna uppbyggingar flutningskerfisins munu hafa í för með sér áhrif á umhverfið en mat á umhverfisáhrifum hálendislínu annars vegar og styrkingar byggðalínuhringsins hins vegar leiðir í ljós að styrking byggðalínuhringsins er líklegri til að hafa neikvæðari áhrif á umhverfið þegar tekið er mið af þeim mælikvörðum sem stuðst er við og byggja á stefnumiðum stjórnvalda, alþjóðlegum samþykktum, öðrum áætlunum og lögum og reglum.Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningarfundi Landsnets í morgun um kerfisáætlun 2014-2023 og drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunarinnar í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Um 60 gestir sóttu fundinn og einnig fylgdust ríflega 300 með beinni útsendingu frá fundinum sem streymt var á heimasíðu Landsnets.
Megininntak kerfisáætlunar Landsnets 2914-2023 er greining á flutningsþörf meginflutningskerfisins til næstu 10 ára og samanburður á loftlínum og jarðstrengjum. Hún er bæði stefnumótandi áætlun um framtíð flutningskerfisins og áætlun um einstök verkefni sem koma til framkvæmda á árunum 2014-2016. Grundvallarforsendur fyrir gerð kerfisáætlunarinnar eru Raforkuspá 2013-2050, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) og þróun raforkumarkaðar. Við mat á þörf fyrir uppbyggingu á flutningskerfi raforku var litið til þriggja sviðsmynda sem voru:
- A Hálendislína og Norðurland
- B Byggðalína
- C Hálendislína og vesturvængur
Kostur A |
Kostur B |
Kostur C |
Matsvinnan fólst í því að gera grein fyrir helstu umhverfisáhrifum kerfisáætlunar á ákveðna umhverfisþætti sem voru skilgreindir í matslýsingu. Þessir þættir eru:
1. Land | 5. Lífríki |
2. Landslag og ásýnd | 6. Menningarminjar |
3. Jarðmyndanir | 7. Loftslag |
4. Vatnafar | 8. Samfélag |
Matið byggði á fyrirliggjandi gögnum og var lögð áhersla á að nýta landupplýsingar sem ýmsar fagstofnanir og aðilar hafa aflað á undanförnum árum. Mat á áhrifum framkvæmdaáætlunar byggði á upplýsingum úr matsskýrslum, matsskyldufyrirspurnum og ákvörðunum og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
Niðurstaða matsvinnu
Niðurstaða matsvinnunnar er að allar flutningsleiðir munu valda neikvæðum og verulegum neikvæðum áhrifum á einhvern þeirra umhverfisþátta sem var til skoðunar, óháð því hvort um sé að ræða loftlínu eða jarðstreng og óháð spennustigi. Áhrifin eru ólík milli leiða, en megin munur liggur þó í því hvort flutningsleið fari um hálendið eða meðfram núverandi byggðalínu.
Áhrif af mögulegum breytingum á upplifun og áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu eru talin vandmeðfarin þar sem það liggi ekki fyrir viðmið eins og fyrir aðra þætti. Talsverð umræða hafi verið um stefnumörkun um landnotkun á hálendinu, m.a. um stórar verndarheildir, vegagerð, legu raflína, orkuvinnslu og uppbyggingu ferðaþjónustu. Þær áætlanir sem horft var til á hálendinu eru m.a. rammaáætlun, náttúruminjaskrá, náttúruverndaráætlun og skipulagsáætlanir. Til að bregðast við takmörkuðum gögnum um ferðaþjónustu fékk umfjöllun um áhrif á landslag og ásýnd ásamt ferðaþjónustu talsvert vægi í allri umfjöllun í matsvinnunni.
Helstu umhverfisáhrif hálendislínu (valkostir A og C) felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd. Helstu umhverfisáhrif byggðalínu (valkostur B) felast í að mun meira land fer undir flutningsmannvirki, hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en aðrar leiðir.
Allir valkostir við uppbyggingu flutningskerfisins eru taldir hafa veruleg jákvæð áhrif á samfélag, sem felst í að þeir tryggja að unnt sé að ráðast í virkjanir samkvæmt rammaáætlun, eru í samræmi við áform um uppbyggingu atvinnustarfsemi í landshlutum og stuðla að auknu afhendingaröryggi og gæðum raforku. Ekki var tekið tillit til stofnkostnaðar eða rekstrarkostnaðar flutningskerfisins, en þó er ljóst að hann kann að vera talsvert ólíkur milli leiða vegna verulegs lengdarmunar og útfærslu á flutningskerfinu m.t.t. jarðstrengs, loftlínu og spennustigs.
Í matsvinnunni hafa verið lagðar til margvíslegar aðgerðir og áherslur sem líta þarf til við útfærslu, hönnun og legu flutningskerfisins, sem geti dregið úr eða komið í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif. Hluti af slíkum aðgerðum er að skoða möguleika á lagningu jarðstrengs á ákveðnum svæðum, sé sú lausn tæknilega raunhæf, val á gerðum mastra og að leiðarval taki mið af landslagseinkennum og mannvirkjum í nágrenninu.
Matsvinnan og samanburður áhrifa valkosta um flutningsleiðir, almenn áhrif af loftlínu og jarðstreng og samanburð ólíkra spennustiga hefur leitt í ljós megin umhverfisáhrif kerfisáætlunar, sem eru neikvæð eða verulega neikvæð á umhverfi og náttúru, en jákvæð og verulega jákvæð á samfélag.
Samanburða á helstu áhrifum valkosta A, B og C má sjá í eftirfarandi töflu og á skýringarmynd af umhverfisþáttum valkostanna. Verulega jákvæð áhrif eru merkt græn og verulega neikvæð áhrif eru merkt rauð/vínrauð.
Umhverfisþáttur |
A │ Hálendislína og Norðurland |
B │ Byggðalína |
C │ Hálendislína og vesturvængur |
1. Land |
Neikvæð áhrif. Meira land fer undir flutningskerfi |
Verulega neikvæð áhrif. Mun meira land fer undir flutningskerfi |
Neikvæð áhrif. Meira land fer undir flutningskerfi |
2. Landslag og ásýnd |
Veruleg neikvæð áhrif. Lína um Sprengisand |
Neikvæð áhrif. Fer um svæði sem njóta verndar vegna landslags |
Veruleg neikvæð áhrif. Lína um Sprengisand |
3. Jarðmyndanir |
Neikvæð áhrif |
Neikvæð áhrif. Raskar nútímahrauni |
Neikvæð áhrif |
4. Vatnafar |
Óveruleg áhrif |
Óveruleg áhrif |
Óveruleg áhrif |
5. Lífríki |
Neikvæð áhrif. Raskar friðlýstum svæðum, öðrum náttúruverndar-svæðum, sérstökum fuglaverndarsvæðum og votlendi |
Veruleg neikvæð áhrif. Raskar friðlýstum svæðum, öðrum náttúruverndarsvæðum, sérstökum fuglaverndarsvæðum og votlendi |
Neikvæð áhrif. Raskar friðlýstum svæðum, öðrum náttúruverndar-svæðum, sérstökum fuglaverndarsvæðum og votlendi |
6. Menningarminjar |
Óvissa um áhrif |
Óvissa um áhrif |
Óvissa um áhrif |
7. Loftslag |
Óveruleg jákvæð áhrif |
Óveruleg jákvæð áhrif |
Óveruleg jákvæð áhrif |
8. Samfélag |
Veruleg jákvæð áhrif. Samræmi við rammaáætlun og uppbyggingu atvinnustarfsemi. Styrkir samkeppnishæfni |
Veruleg jákvæð áhrif. Samræmi við rammaáætlun og uppbyggingu atvinnustarfsemi. Styrkir samkeppnishæfni |
Veruleg jákvæð áhrif. Samræmi við rammaáætlun og uppbyggingu atvinnustarfsemi. Styrkir samkeppnishæfni |
|
|
|
|
Hálendislína eða byggðalína?
Í kjölfar mats á mögulegum áhrifum leiða A, B og C var gerður nánari samanburð á leiðum A og B til að gera betur grein fyrir þeim mun sem felst í umhverfisáhrifum þess að fara um hálendið eða byggðalínuna. Það eru þrír kaflar sem eru ólíkir milli þessara leiða. Í fyrsta lagi er það leggurinn sem liggur um hálendið, í öðru lagi er það leggurinn frá Fljótsdal að Sigöldu og í þriðja lagi er það svokallaður vesturvængur.
Niðurstaða samanburðar á leiðunum var að leið B er líklegri til að hafa neikvæðari áhrif á umhverfið þegar tekið er mið af þeim mælikvörðum sem stuðst er við og byggja á stefnumiðum stjórnvalda, alþjóðlegum samþykktum, öðrum áætlunum og lögum og reglum. Hluti af ástæðum þess er að leið B er mun lengri en leið A. Leið B er líklegri til að hafa neikvæðari áhrif á umhverfisþættina land, lífríki, loftslag og samfélag, en leið A er líklegri til að hafa neikvæðari áhrif á landslag og ásýnd og vegur þar þyngst breyting á upplifun landslags á hálendinu.
Þegar á heildina er litið er það því niðurstaða matsvinnunnar að áhrif þessara valkosta séu ólík, en þegar tekið sé mið af mælikvörðum umhverfismatsins komi leið A til með að valda minni neikvæðum umhverfisáhrifum en leið B.
Umhverfismatið mikilvægur gagnagrunnur
Kerfisáætlun Landsnets er endurskoðuð á hverju ári og er gert ráð fyrir því að umhverfisskýrsla verði endurskoðuð samhliða. Með umhverfisskýrslunni er því orðinn til mikilvægur grunnur margvíslegra gagna og þar eru lagðar til margvíslegar aðgerðir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum eða koma í veg fyrir þau, og líta beri til á seinni stigum, svo sem við skipulag og undirbúning og mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda við styrkingu flutningskerfisins.