Rannsókn á áreiðanleika raforkuflutningskerfa fær 1.200 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu


26.08.2013

  • Umfangsmesta rannsóknarverkefni á raforkuflutningskerfum í heiminum
  • 4 ára samstarfsverkerkefni 20 háskóla, flutningsfyrirtækja og stofnana í Evrópu
  • Byggist á hugmynd frá Íslandi - hlutur Landsnets og HR umtalsverður 

Rannsóknarverkefnið GARPUR - Generally Accepted Reliability Principle with Uncertainty modelling and through probabilistic Risk assessment - sem Landsnet og Háskólinn í Reykjavík standa að ásamt 17 evrópskum háskólum, rannsóknarstofnunum og raforkuflutningsfyrirtækjum hefur hlotið styrk að fjárhæð 7,7 milljónir evra, jafnvirði um 1,2 milljarða króna, úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. GARPUR er stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum, áætlaður heildarkostnaður við það er um 1,7 milljarðar króna en hugmyndin að verkefninu á rætur að rekja til Íslands.

Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins er að bylta gildandi aðferðafræði við áreiðanleikaútreikninga raforkuflutningskerfa og þróa ný og hagkvæmari viðmið svo evrópsk flutningsfyrirtæki verði betur í stakk búin til að takast á við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og vinna að frekari þróun þeirra.

Metnaðarfullt samevrópskt verkefni 

Áætlaður framkvæmdatími rannsóknarverkefnisins er fjögur ár. Auk Landsnets og Háskólans í Reykjavík taka flutningsfyrirtæki raforku í Noregi, Belgíu, Frakklandi, Búlgaríu, Tékklandi og Danmörku þátt í því, ásamt háskólum og rannsóknarstofnunum í Noregi, Belgíu, Finnlandi, Hollandi, Bretlandi, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ísrael og Danmörku.

GARPUR er umfangsmesta rannsóknarverkefni sem ráðist hefur verið í á þessu sviði en sífellt hefur orðið erfiðara að spá fyrir um raforkueftirspurn og framboð, m.a. vegna stóraukinnar samþættingar dreifikerfa á evrópska raforkumarkaðnum og vaxandi notkunar á endurnýjanlegum orkuauðlindum, s.s. vindorku og fleiri valkostum. Þá hafa breytt viðhorf almennings, m.a. andstaða við lagningu háspennulína, almennt hægt á uppbyggingu raforkukerfa sem leitt hefur til þess að kerfin eru í auknum mæli rekin nálægt þolmörkum. Á sama tíma hafa tækniframfarir, m.a. í upplýsingatækni, mælitækni og rafeindatækni, skapað nýja möguleika til að meta áreiðanleika flutningskerfa raforku og auðvelda nákvæmari stjórnun þeirra frá því sem áður var.

Íslenskt frumkvæði og umtalsvert hlutverk

Uppruna verkefnisins, sem hefur verið á annað ár í undirbúningi, má rekja til hugmyndar frá Landsneti sem fyrirtækið þróaði áfram í nánu samstarfi við norska flutningsfyrirtækið Statnett. GARPUR skiptist í 11 verkhluta og er hlutur Íslands umtalsverður því fulltrúar Háskólans í Reykjavík og Landsnets leiða tvo þeirra, eða um 20% af verkefninu.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, leiðir rannsóknir og þróun á efnahagslegum mælikvörðum svo hægt verði að bera saman mismunandi áreiðanleikaviðmið fyrir raforkukerfi. Íris Baldursdóttir, deildarstjóri Kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, leiðir þann hluta verkefnisins sem miðar að því að þróa og aðlaga nýja aðferðafræði við skammtíma áætlanagerð og rauntímastýringu raforkukerfa.

Landsnet, í samstarfi við Statnett í Noregi, verður einnig í lykilhlutverki við að prófa nýju aðferðafræðina og áreiðanleikaviðmiðin enda í fararbroddi í heiminum í greiningu á stöðugleika raforkukerfis í rauntíma. Hjá Landsneti hefur verið lögð áhersla á þróun og notkun snjallnetslausna á undanförnum misserum, þ.á.m. á svokallað víðmælakerfi eða víðsjá. Þessar tækninýjungar gera stjórnstöð Landsnets m.a. kleift að fá upplýsinar í rauntíma um stöðugleika raforkukerfisins og því er Ísland - og íslenska raforkukerfið - kjörinn vettvangur til að prófa niðurstöður þessa metnaðarfulla rannsóknarverkefnis. Vonir eru jafnframt bundnar við að verkefnið leiði til áhugaverðra rannsóknarverkefna fyrir doktorsnema á Íslandi og skili yfirgripsmikilli þekkingu á málaflokknum.

Áætlaður heildarkostnaður við rannsóknarverkefnið GARPUR er 1,7 milljarðar króna. Rannsóknarstyrkur úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins nemur 1,2 milljörðum króna. Mismuninn þar á milli greiða þátttakendurnir í verkefninu. Hlutur Landsnets og Háskólans í Reykjavík í rannsóknarverkefninu nemur u.þ.b. 130 milljónum króna. 

Nánari upplýsingar veita:

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í síma 825-6396.
Íris Baldursdóttir, deildarstjóri Kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, í síma 856-9312. 



Íslensku verkhlutastjórarnir í rannsóknarverkefninu GARPUR, Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og Íris Baldursdóttir, deildarstjóri Kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, í stjórnstöð Landsnets ásamt Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Guðmundi Inga Ásmundssyni, aðstoðarforstjóra Landsnets, Ragnari Guðmannssyni, yfirmanni stjórnstöðvar Landsnets og Þórönnu Jónsdóttur, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. 

Aftur í allar fréttir