Vinnuhópur Cigré um trefjamöstur með fund á Íslandi


18.04.2016

Framkvæmd

Helstu sérfræðingar heimsins í þróun og hönnun háspennumastra úr trefjaefni báru saman bækur sínar á þriggja daga vinnufundi hérlendis fyrir helgi í samstarfi við Landsnet, sem átti nokkra fulltrúa á fundinum.

Vinnuhópurinn er á vegum Cigré, alheimssamtaka orkuiðnaðarins, framleiðenda búnaðar, háskóla og sérfræðinga á orkusviði, sem fjallar um háspennumöstur úr trefjaefni. Í honum eiga sæti helstu sérfræðingar heims á því sviði, bæði frá framleiðendum, hönnuðum, notendum og rannsóknarstofum og er vinnunni stýrt af Árna Birni Jónassyni hjá ARA Engineering. Þátttakendur voru um 20 talsins og komu víða að, m.a. frá Brasilíu, Kanada, Rússlandi, Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum Evrópu, auk þess sem sérfræðingum Landsnets gafst færi á að sitja fundina.

Glertrefjamöstur hafa reynst vel á lægri spennu
Framleiðsla trefjamastra og notkun þeirra í háspennulínukerfum víðs vegar um heim var kynnt á fundinum og kom m.a. fram að glertrefjamöstur sem sett hafa verið upp á nokkrum stöðum hafa reynst vel á lægri spennu.

Sérstaklega þykja glertrefjamöstur henta vel í staðinn fyrir trémöstur en víða er umræða um mengun af völdum kreósóts sem notað er til að fúaverja tréstaura. Því hefur notkun tréstaura verið bönnuð á ákveðnum svæðum og þykja trefjamöstur henta vel í stað þeirra. Möstur úr glertrefjum eru allt að 50% léttari en hefðbundin tréstauramöstur. Þau eru því mun meðfærilegri og gefa möguleika á að nota þyrlur við reisingu háspennulína. Þá eru glertrefjamöstur talin heppileg í kerfum þar sem unnið er við línurnar undir spennu því glertrefjar eru einangrandi og hættan því minni en þegar unnið er við hefðbundin möstur.

Erfiðara um vik með trefjamöstur á hærri spennu

Á fundunum kom einnig fram að talsverð þróun á sér nú stað í gerð trefjamastra og er m.a. verið að þróa aðferðir til að nýta þetta efni einnig í möstur á hærri spennu. Mikil sveigja efnisins hefur þó sett nokkrar skorður við notkun trefja í möstur á hærri spennu en fundarmenn voru þó sammála um að leysa mætti þann vanda.

Gert er ráð fyrir að vinnuhópur Cigré um háspennumöstur úr trefjaefnum skili skýrslu um málið eftir tvö og hálf ár, í desember 2018.

Myndir af vinnuhópnum og trefjamsöstum.
Aftur í allar fréttir