Um hagsmunaráð Landsnets

Hagsmunaráð Landsnets var sett á stofn árið 2018 og er megintilgangur þess að skapa vettvang umræðna milli hagaðila í samfélaginu um uppbyggingu raforkukerfisins.

Á vorfundi Landsnets það ár tilkynnti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um áform að stofna hagsmunaráð, sem lið í auknu samráði um uppbyggingu grunninnviða.

Hagsmunaráði er ætlað að stuðla að auknu samráði, auknum gagnkvæmum skilningi, leiða til nýrra lausna og aukinnar sáttar um framtíð flutningskerfis raforku.

Landsnet hefur umsjón með hagsmunaráðinu en sú ábyrgð felst m.a. í að kalla eftir tilnefningum í ráðið, undirbúa og boða fundi og sjá um samskipti við fulltrúa þess. Formaður ráðsins er skipaður samkvæmt ábendingu frá ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Við skoðun á samsetningu og fyrirkomulagi hagsmunaráðs hefur verið litið til erlendra fyrirmynda, m.a. Energinet í Danmörku, Elia í Belgíu og NationalGrid í Bretlandi. Í öllum tilvikum hefur hagsmunaráð stuðlað að bættri áætlanagerð og auknum samskiptum hagaðila.

Skipunartími í ráðið er 2 ár og áætlað að ráðið komi saman að minnsta kosti tvisvar á ári.