B.6 Skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

Útgáfa 3.0 gefin út 08.04.2021

1 Inngangur

 1.1 Í skilmálum þessum er fjallað um samskipti milli dreifiveitna, sölufyrirtækja og jöfnunarábyrgðaraðila vegna nýrra tenginga notenda raforku, notendaskipta, skipta um sölufyrirtæki, mælinga, uppgjörs og stöðvunar á afhendingu raforku.

1.2 Skilmálar þessir eru settir af Landsneti hf. samkvæmt heimild í 38. gr. reglugerðar 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar og byggja á raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum.

1.3 Skilmálarnir byggja á sænskri útgáfu af Ediel staðlinum um samskipti aðila á raforkumarkaði.

1.4 Skilmálar þessir eru staðfestir af Orkustofnun sbr. 38. gr. reglugerðar nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar.

2 Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Aðilaskrá raforkumarkaðar: Skrá yfir aðila á raforkumarkaði sem eiga samskipti sín á milli með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn samkvæmt Ediel staðlinum.

2.2 Almennur notandi: Almennir notendur eru notendur eða þjónustuveitendur sem ekki eru stór¬notendur eða heildsalar

2.3 APERAK: Ediel skeyti til staðfestingar á móttöku og áreiðanleika upplýsinga Ediel skeyta.

2.4 Biðtími: Sá tími sem notandi hefur til að hafa samband við sölufyrirtæki og láta það senda inn erindi til að grípa sölu á nýjum veitum og við notendaskipti. Biðtíminn er skilgreindur sem 7 dagar að meðtöldum líðandi degi.

2.5 DELFOR: Ediel skeyti til miðlunar á uppgjörsgögnum og áætlunum.

2.6 Ediel: Staðall um rafræn skeyti milli aðila á raforkumarkaði sem innihalda upplýsingar um mæli-, grunn- eða uppgjörsgögn eða staðfestingar á móttöku slíkra skeyta.

2.7 Grunngögn: Upplýsingar um aðila, mælistaði, mæla og áætlaða ársnotkun.

2.8 Jöfnunarábyrgðaraðili: Er aðili sem ábyrgist með skriflegum samningi við Landsnet að jafnvægi sé milli öflunar raforku, þ.e. raforkuframleiðslu og raforkukaupa annars vegar og ráðstöfunar, þ.e. sölu og notkunar hins vegar.

2.9 MSCONS: Ediel skeyti til miðlunar á mæligögnum.

2.10 Mæligögn: Upplýsingar um mælingu úr sölumælum og summur þeirra.

2.11 Mælistaður: Sá staður í dreifikerfi eða flutningskerfi þar sem mæling fer fram.

2.12 Neysluveita: Raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa eða búnað, sem gegnir hlut¬verki stofnkassa. Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita.

2.13 Notendaskipti: Notandi tekur við neysluveitu.

2.14 Notkunarstaður: Sá staður þar sem dreifiveita afhendir raforku til almenns notanda.

2.15 Notkunarferilssvæði: Svæði sem inniheldur alla mælistaði sem mynda einn notkunarferil.

2.16 PRODAT: Ediel skeyti til að miðla upplýsingum um grunngögn á milli aðila.

2.17 Raforkusölusamningur: Samningur milli sölufyrirtækis og viðskiptavinar um sölu hins fyrr¬nefnda á raforku til hins síðarnefnda.

2.18 Reikniverkskóði: Kóði til að lýsa hvernig mælingum í mælistað er skipt upp innan ákveðins tímabils. Sjá einnig tilvísun.

2.19 Samningsbundinn söluaðili: Ef notandi neysluveitu er með gildan raforkusölusamning við sama sölufyrirtæki á öllum sínum neysluveitum er það sölufyrirtæki skilgreint sem samningsbundinn söluaðili. Þjónustuaðili dreifiveitu ber að halda upplýsingum um samningssamband notenda neysluveitu við samningsbundinn söluaðila í allt að 90 daga frá því að notandi neysluveitu aftengdist henni. Líði lengri tími en 90 dagar frá því að notandi neysluveitu var síðast með tengda neysluveitu, þar ber sölufyrirtæki að ný að tilkynna til þjónustuaðila dreifiveitu um samning við kaupanda raforku innan skilgreinds biðtíma. Að öðrum kosti ber að setja notanda til söluaðila til þrautavara.

2.20 Sölufyrirtæki: Er fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti hvort sem er í heildsölu eða smásölu.

2.21 Tegundarkóði: Kóði sem lýsir tegund notkunar, vinnslu eða miðlunar sem mæld er í mælistað. Sjá tilvísun.

2.22 Tengidagur: Sá dagur þegar mælistaður er tengdur við veitukerfi og raforkuafhending hefst.

2.23 Tengisamningur dreifiveitu: Heimtaugaumsókn eða sérstakur samningur dreifiveitu við almennan notanda eða vinnslufyrirtæki um tengingu þessara aðila við dreifikerfið, dreifingu raforku, mælingu hennar eða aðra þjónustu tengda afhendingarstað raforkunnar.

2.24 Uppgjörsgögn: Upplýsingar um tímaraðir, notkunarferla og notkun, hlutfallstölur og jöfnunarorku sem notaðar eru í uppgjöri.

2.25 Upphaf afhendingar: Þegar raforkuafhending samkvæmt nýjum raforkusölusamningi hefst í mælistað.

2.26 Söluaðili til þrautavara: Það sölufyrirtæki sem Orkustofnun hefur valið til að afhenda raforku til þeirra notenda sem falla undir ákvæði 5. mgr. 7. gr. reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar.

2.27 Yfirlitsskrá grunngagna: Skrá til afstemmingar grunngagna aðila á markaði.

2.28 Þjónustuaðili dreifiveitna: Aðili sem sér um miðlæg samskipti aðila á raforkumarkaði fyrir hönd dreifiveitna (Netorka)

2.29 Uppsögn með þriggja vikna fyrirvara: Þrjár vikur fyrir mánaðamót þýðir að tilkynning frá söluaðila um nýjan samning hafi borist þjónustuaðila dreifiveitu fyrir miðnætti 10. hvers 31 dags mánaðar, fyrir miðnætti 9. hvers 30 daga mánaðar, fyrir miðnætti 8. hvers 29 daga mánaðar og fyrir miðnætti 7. hvers 28 daga mánaðar.

3 Forsendur

3.1 Forsenda raforkuviðskipta almennra notenda er að viðkomandi sé skráður viðskiptavinur dreifiveitu á tilteknum notkunarstað, að neysluveita hans sé tengd dreifikerfinu og að hann hafi gert raforkusölusamning við sölufyrirtæki. Raforkusölusamningur er ekki bundinn notkunarstað.

3.2 Aðilaskrá raforkumarkaðar skal notuð til grundvallar samskiptum milli aðila samkvæmt skilmálum þessum.

3.3 Sölufyrirtæki og dreifiveitur skulu geta skipst á yfirlitsskrá grunngagna fyrir sameiginlega mælistaði til afstemmingar og yfirfærslu upplýsinga vegna breytinga á hlutverki aðila.

3.4 Aðilum raforkumarkaðar er heimilt að fela öðrum framkvæmd og umsjón með einstökum atriðum varðandi samskipti samkvæmt skilmálum þessum að því gefnu að viðkomandi undirgangist skuldbindingu um trúnað. Slíkt leysir aðila raforkumarkaðar þó ekki undan ábyrgð sinni og skyldum samkvæmt reglum þessum.

4 Stöðluð skeyti fyrir samskipti

4.1 Í samskiptum milli aðila skulu notuð stöðluð skeytaform svo sem Ediel og/eða SVEFXX nema hlutaðeigandi aðilar komi sér saman um annað. Ediel skeytin eru af gerðunum PRODAT, MSCONS og DELFOR sem lýst er nánar í tilvísunum við skilmála þessa.

4.2 Verði ágreiningur um skeytaform samskiptanna skal Landsnet skera úr um hvaða skeytaform skuli notað.

5 Skyldur og ábyrgð sölufyrirtækja

5.1 Sölufyrirtæki ber að tilkynna um raforkusölusamning við notanda til þeirrar dreifiveitu sem ábyrg er fyrir dreifisvæði notandans. Samþykki notanda á raforkusölusamningi skal liggja til grundvallar tilkynningu sölufyrirtækis til dreifiveitu um nýjan raforkusölusamning.

5.2 Við riftun raforkusölusamnings skal sölufyrirtæki tilkynna um lok orkuviðskipta til dreifiveitu.

6 Skyldur og ábyrgð dreifiveitna

6.1 Í samræmi við 7. gr reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar ber dreifiveitu ávallt að upplýsa nýja notendur um rétt þeirra til að velja sér sölufyrirtæki og rétt þeirra til að skipta um sölufyrirtæki.

6.2 Dreifiveita skal halda skrá yfir grunn- og mæligögn fyrir hvern mælistað á dreifiveitusvæði sínu.

6.3 Dreifiveitu ber að miðla til sölufyrirtækja og jöfnunarábyrgðaraðila breytingum á grunngögnum er varða þeirra notendur.

6.4 Dreifiveita ber ábyrgð á öflun mæligagna á dreifiveitusvæði sínu, söfnun, leiðréttingu og staðfestingu mæligagna og dreifingu þeirra til viðkomandi aðila.

6.5 Dreifiveitu ber að halda skrá yfir sölufyrirtæki og jöfnunarábyrgðaraðila sem eru með sölu og jöfnunarábyrgð á þeirra dreifiveitusvæði.

6.6 Dreifiveitu ber að tilkynna Landsneti um jöfnunarábyrgðaraðila sem eru með jöfnunarábyrgð á þeirra dreifiveitusvæði.
 

7 Skyldur og ábyrgð Landsnets

7.1 Landsnet heldur aðilaskrá raforkumarkaðar.

7.2 Landsnet gefur út reikniverkskóða fyrir tegund mælingar.

7.3 Landsnet gefur út tegundarkóða til notkunar í samskiptum milli aðila á raforkumarkaði með mæli- og uppgjörsgögn.

7.4 Landsnet heldur skrá yfir notkunarferilssvæði dreifiveitna.

7.5 Landsnet gefur út snið fyrir yfirlitsskrá grunngagna.

7.6 Landsnet skal hafa ofangreindar upplýsingar aðgengilegar fyrir aðila á raforkumarkaði.

8 Nýr notkunarstaður/veita

 8.1 Enginn samningsbundinn söluaðili eða samningur við fleiri en einn söluaðila: Sé viðskiptavinur ekki með samningsbundinn söluaðila eða sé hann með samning við fleiri en einn söluaðila verður hann að velja sér söluaðila fyrir þann nýja notkunarstað/veitu sem um ræðir. Í þeim tilfellum sendir þjónustuaðili dreifiveitu SMS og/eða tölvupóst á viðskiptavin til áminningar. Viðskiptavinur hefur samband við þann söluaðila sem hann kýs að gera sölusamning við þannig að söluaðilinn geti innan skilgreinds biðtíma sent tilkynningu í formi Z03LK skeytis um raforkusölusamning í notkunarstað til þjónustuaðila dreifiveitu. Ef viðskiptavinur eða söluaðili bregst ekki við innan skilgreinds biðtíma ber þjónustuaðila dreifiveitu að setja hann í viðskipti við það sölufyrirtæki sem Orkustofnun hefur valið til að vera söluaðila til þrautavara hverju sinni.



Mynd 1

8.2 Samningsbundinn söluaðili: Sé viðskiptavinur með samningsbundinn söluaðila fylgir sá söluaðili viðskiptavini við skráningu nýs notkunarstaðar/veitu og skal þjónustuaðili dreifiveitu setja viðskiptin til samningsbundna söluaðilans um leið veitan er stofnuð hjá dreifiveitu án nokkurs biðtíma. Ákveði viðskiptavinur að velja annan söluaðila í stað samningsbundna söluaðilans fyrir nýja notkunarstaðinn/veituna skal breytingin fara fram með venjulegum söluaðilaskiptum samkvæmt kafla 9 eftir að dreifiveita hefur stofnað nýju veituna.


Mynd 2

 

8.3 Dreifiveitu ber að senda sölufyrirtæki staðfestingu innan skilgreinds biðtíma eða strax að honum loknum. Staðfestingin skal vera í samræmi við PRODAT skeyti Z04LK eða Z04A.

8.4 Dreifiveita skal senda sölufyrirtæki upplýsingar um frumálestur mælis í formi MSCONS skeyta sem lýst er í tilvísun með skilmálum þessum.

9 Skipti á sölufyrirtæki

9.1 Skipti á sölufyrirtæki fara fram á miðnætti við upphaf fyrsta dags hvers mánaðar.

9.2 Við skipti á sölufyrirtæki skal hið nýja sölufyrirtæki senda tilkynningu um nýjan samning vegna skipta á sölufyrirtæki til þjónustuaðila dreifiveitu. Tilkynningin skal vera í formi rétt útfyllts Z03L skeytis sem jafngildir uppsögn á raforkusölusamningi við fyrra sölufyrirtæki. Skeytið þarf að hafa borist þjónustuaðila dreifiveitu þremur vikum fyrir mánaðamót eigi skipti á sölufyrirtæki að taka gildi næstkomandi mánaðamót, sjá nánar skiptifrest á mynd 3, annars taka þau gildi næstu mánaðamót þar á eftir, sjá nánar skiptifrest á mynd 4. Sjá einnig skilgreiningu nr. 2.29. Auk kennitölu mælistaðar þarf tilkynning um nýjan samning að innihalda nafn notandans og kennitölu og kóða notkunarferilssvæðis.

9.3 Þjónustuaðila dreifiveitu ber að senda staðfestingu um móttöku með APERAK skeyti, innan 24 klukkustunda (miðað við virka daga) frá móttöku, með upplýsingum um hvort skeytið sé rétt útfyllt.

9.4 Þjónustuaðila dreifiveitu ber að senda skeyti til staðfestingar á skiptum á sölufyrirtæki til þess sölufyrirtækis sem tekur yfir viðskiptin. Staðfesting skal vera í formi Z04L skeytis og skal send innan 5 virkra daga eftir móttöku Z03L skeytis um nýjan samning vegna skipta á sölufyrirtæki.

9.5 Þjónustuaðila dreifiveitu ber að senda Z05L skeyti um samningslok til fyrra sölufyrirtækis. Skeytið skal sent innan 5 virkra daga eftir móttöku Z03L skeytis um nýjan samning vegna skipta á sölufyrirtæki.

9.6 Dreifiveita skal útvega álestur af sölumæli og senda bæði eldra og nýju sölufyrirtæki með MSCONS skeyti innan 5 virkra daga frá skiptadegi þar sem tilefni álestrar er tilgreint.

Samskipti og tímasetningar vegna skipta á sölufyrirtæki eru sýnd á myndum 3 og 4

 

Mynd 3

 

Mynd 4

 

9.7 Sölufyrirtæki getur afturkallað tilkynningu um samning í seinasta lagi 14. dag mánaðarins fyrir fyrirhuguð skipti. Sölufyrirtæki skal senda þjónustuaðila dreifiveitu Z03C skeyti um afturköllun á skiptum á sölufyrirtæki. Þjónustuaðila dreifiveitu ber að senda Z04C skeyti um staðfestingu á afturköllun til hins nýja sölufyrirtækis og Z05C til fyrra sölufyrirtækis innan 5 virkra daga. Samskiptum aðila við afturköllun á skiptum á sölufyrirtæki er lýst á mynd 5.



Mynd 5

10 Notendaskipti á notkunarstað/veitu

10.1 Flutningur út. Við flutning út þar sem ekki er ljóst hver tekur við tengisamningi getur dreifiveita lokað fyrir afhendingu í mælistað eða skráð eiganda húsnæðis fyrir tengisamningi og fara þá notendaskipti í samræmi við kafla 10.2 eða 10.3.

10.2 Enginn samningsbundinn söluaðili eða samningur við fleiri en einn söluaðila: Sé nýr viðskiptavinur ekki með samningsbundinn söluaðila eða sé hann með samning við fleiri en einn söluaðila verður hann að velja sér söluaðila fyrir þann notkunarstað/veitu sem um ræðir. Í þeim tilfellum sendir þjónustuaðili dreifiveitu SMS og/eða tölvupóst á viðskiptavin til áminningar. Viðskiptavinur hefur samband við þann söluaðila sem hann kýs að gera sölusamning við þannig að söluaðilinn geti innan skilgreinds biðtíma sent tilkynningu í formi Z03LK skeytis um raforkusölusamning í notkunarstað til þjónustuaðila dreifiveitu. Ef viðskiptavinur eða söluaðili bregst ekki við innan skilgreinds biðtíma ber þjónustuaðila dreifiveitu að setja hann í viðskipti við það sölufyrirtæki sem Orkustofnun hefur valið til að vera söluaðila til þrautavara hverju sinni.

Mynd 6



10.3 Samningsbundinn söluaðili: Sé viðskiptavinur með samningsbundinn söluaðila fylgir sá söluaðili viðskiptavini við skráningu notkunarstaðar/veitu. Ákveði viðskiptavinur að velja annan söluaðila í stað samningsbundna söluaðilans fyrir notkunarstaðinn/veituna hefur hann samband við þann söluaðila sem hann kýs að gera sölusamning við áður en notendaskipti eru framkvæmd af dreifiveitu þannig að söluaðilinn geti sent tilkynningu í formi Z03LK skeytis um raforkusölusamning í notkunarstað til þjónustuaðila dreifiveitu. Ef ekki berst tilkynning frá nýjum söluaðila fyrir skráningu notendaskipta hjá dreifiveitu, setur þjónustuaðili dreifiveitu viðskiptin til samningsbundna söluaðilans um leið og notendaskiptin eru framkvæmd og án nokkurs biðtíma.

Mynd 7

 

11Söluaðili til þrautavar

11.1 Sé viðskiptavinur ekki með samningsbundinn söluaðila og hefur ekki valið sér söluaðila vegna nýrrar veitu eða við notendaskipti, ber þjónustuaðila dreifiveitu að setja hann í viðskipti við söluaðila til þrautavara.
Sé viðskiptavinur með fleiri en einn söluaðila skal hann vegna nýrrar veitu eða við notendaskipti velja sér söluaðila, annars ber þjónustuaðila dreifiveitu að setja hann í viðskipti við söluaðila til þrautavara.

11.2 Þegar þjónustuaðili dreifiveitu setur viðskiptavin í viðskipti við söluaðila til þrautavara skal hann tilkynna því sölufyrirtæki það með Z04A skeyti strax að loknum skilgreindum biðtíma.

11.3 Óski viðskiptavinur eftir að kaupa rafmagn af öðrum söluaðila en söluaðila til þrautavara eftir að afhending til hans hefst, skal breytingin fara fram með venjulegum söluaðilaskiptum samkvæmt kafla 9.


12 Álestur

12.1 Dreifiveitu ber að útvega álestur af mæli hjá viðskiptavin vegna:
a) Upphafs viðskipta.
b) Skipta á sölufyrirtæki.
c) Notendaskipta (flutningur inn/út).
d) Reglubundinna uppgjöra.
e) Mælaskipta.
f) Loka viðskipta (niðurtöku mælis).

12.2 Álestur vegna skipta á sölufyrirtæki og notandaskipta skal fara fram á skiptadegi eða innan 5 virkra daga fyrir eða eftir skiptadag. Nota skal álestur sem ekki er tekin á skiptadegi til útreikninga á álestri sem skrá skal á skiptadag. Ef álestur næst ekki skal dreifiveita áætla álestur í samráði við viðkomandi sölufyrirtæki. Reynist áætlun röng er dreifiveitu heimilt að leiðrétta álesturinn

12.3 Uppgjörsálestur skal fara fram á 12 mánaða fresti og vera óháður öðrum álestrum.

12.4 Dreifiveitu er heimilt að taka við álestri frá notanda (sjálfsálestri), til árlegs uppgjörs, vegna skipta á sölufyrirtæki og vegna notandaskipta. Dreifiveita skal þá sannreyna álesturinn miðað við fyrri álestra og notkun eða á annan þann hátt sem hún telur nægjanlegt. Telji dreifiveita að vafi leiki á áreiðanleika sjálfsálesturs skal dreifiveita lesa af mæli. Dreifiveita skal lesa af mælum hjá almennum notendum að lágmarki fjórða hvert ár.

12.5 Hafi sölufyrirtæki athugasemdir við álestra skal það senda rökstutt erindi þess efnis til dreifiveitu sem skal svara athugasemdum og/eða senda nýjan álestur.

12.6 Þjónustuaðili dreifiveitu skal senda gögn vegna reglubundinna uppgjöra eigi síðar en 30 dögum eftir að álestur átti sér stað, í formi MSCONS skeyta.

12.7 Í samskiptum með gögn um mælaálestra skal tilgreina kóða fyrir ástæðu álestrar.

13 Riftun orkusölusamnings

 13.1 Sölufyrirtæki skal senda tilkynningu til þjónustuaðila dreifiveitu um fyrirhuguð lok raforkuviðskipta og samrit til notanda, þegar ekki er um skipti á sölufyrirtæki að ræða. Tilkynningu um lok viðskipta skal senda a.m.k. 30 dögum fyrir fyrirhuguð lok.

13.2 Uppsögn sölufyrirtækis á raforkusölusamningi tekur gildi við mánaðarmót.

13.3 Þjónustuaðili dreifiveitu skal staðfesta móttöku á tilkynningu um riftun á sölusamningi.

13.4 Berist þjónustuaðila dreifiveitu ekki Z03LK skeyti um nýjan sölusamning fyrir mælistað frá sölufyrirtæki skal úthluta notandanum sölufyrirtæki sbr. 11. grein skilmála þessa.

13.5 Við lok afhendingar útvegar dreifiveita álestur af sölumæli og sendir sölufyrirtæki upplýsingar um mælaálestur með MSCONS skeyti.

14 Trúnaður

14.1 Þeir sem fá upplýsingar í hendur á grundvelli skilmála þessara eru bundnir trúnaði um þær upplýsingar. Þeim er óheimilt að miðla upplýsingum til annarra en þeirra sem rétt hafa á að fá upplýsingarnar á grundvelli þessara skilmála. Vísast í því sambandi m.a. til 8. mgr. 9. gr. og 7. tl. 3. mgr. 16. gr. og raforkulaga nr. 65/2003.

15 Bótaskylda og óviðráðanleg öfl

15.1 Ákvæði 9. greinar Almennra skilmála Landsnets um flutning rafmagns og kerfisstjórnun varðandi ábyrgð gildir um bótaábyrgð aðila á grundvelli þessara skilmála.

15.2 Ákvæði 10. greinar Almennra skilmála um flutning rafmagns og kerfisstjórnun varðandi óviðráðanleg öfl gildir um samskipti aðila á grundvelli þessara skilmála.

16 Eftirlit og úrræði

16.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki sem falla undir gildissvið raforkulaga nr. 65/2003 starfi samkvæmt lögunum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

16.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.

16.3 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms í umdæmi annars hvors eða eins aðila ágreiningsins.

17 Tilvísanir

 Eftirfarandi tilvísanir sem tilheyra þessu skjali eru vistaðar á heimasíðu Landsnets, www.landsnet.is.

1. Aðilaskrá raforkumarkaðar.
2. Notkunarferilssvæði.
3. Stöðluð Ediel skeyti í samskiptum orkufyrirtækja.
4. Upplýsingar í PRODAT Z03, Z04 og Z05 skeytum.
5. Kóðar fyrir ástæður álestra í MSCONS skeytum.
6. Tegundarkóðar.
7. Reikniverkskóðar og lotuskipting.
8. Yfirlitsskrá grunngagna

Tilvísun 1


Aðilaskrá raforkumarkaðar





Tilvísun 2

Notkunarferilssvæði

Dreifiveita hefur heimild til að skipta dreifiveitusvæði sínu í fleiri en eitt notkunarferilssvæði í samræmi við 2. mgr. 46 gr. reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar.

Dreifiveita skal skila Landsneti lýsingu á sérhverju notkunarferilssvæði þar sem auðkenni þeirra tímamældu mælistaða sem afmarka notkunarferilssvæði kemur fram ásamt nafni og því auðkenni notkunarferilssvæðis sem dreifiveita kýs.

Landsnet viðheldur skrá með lýsingum notkunarferilssvæða og mælistaða sem afmarka þau ásamt númerum þeirra.



Tilvísun 3

Stöðluð Ediel skeyti í samskiptum orkufyrirtækja


*) Skeytið Z04A er einnig notað sem staðfesting á að dreifiveita hafi frá ákveðnum degi hafið afhendingu á raforku til notanda sem þegar hefur samning við viðkomandi sölufyrirtæki í nýjum mælistað.


Tilvísun 4

Upplýsingar í PRODAT Z03, Z04 og Z05 skeytum