Virk orkuviðskipti

Hefðbundnir virkjanakostir standa ekki undir þörfum vegna orkuskipta og því þarf að leita nýrra leiða bæði við raforkuframleiðslu og betri nýtingu.

Virkur raforkumarkaður er forsenda fyrir nýja breytilega orkugjafa og styður þannig við sveigjanlegri framleiðslu og notkun. Með betri nýtingu raforku minnkar jafnframt þörfin fyrir frekari virkjanir og því er raforkumarkaður líka umhverfismál.

Virkur raforkumarkaður mælir virði raforku á hverjum tíma og virkar þannig sem hvati til fjárfestinga og meira orkuöryggis. Með lagabreytingum verður tryggt að heimili munu áfram vera í forgangi og ekki finna fyrir verðsveiflum á raforkumakaði.

Af hverju þarf virk orkuviðskipti ?

Sveiflur í orkuframleiðslu munu aukast verulega með nýjum orkugjöfum.

Framleiðsla vindorkuverka er háð vindafari og sólarorkuvera birtu. Vatnsorkuver munu gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja jafnvægi milli notkunar og orkuvinnslu.

Þau munu þó ekki duga til að mæta sveiflum og munu notendur því þurfa að aðlaga notkun að breytilegu framboði, ásamt nýrri tækni við orkugeymslu og stýringar.

Smærri notendur geta til dæmis hlaðið rafbíla þegar framboð af orku er mikið og stærri fyrirtæki aðlaga sína starfsemi að breytilegu orkuframboði og verði. Það er því mikilvægt að til staðar sé virkur og gagnsær viðskiptavettvangur fyrir orku.

Samspil markaðsþróunar og uppbyggingar er nauðsynlegt ásamt ábyrgri notkun og takmörkunar á umhverfisáhrifum.

Þjóðhagslegur ábati af virkum rafrokumarkaði

Miklar breytingar standa yfir og eru framundan í orkukerfum heimsins. Flestar þjóðir heims hafa sett sér metnaðarfull markmið um umbreytingu orkukerfa sinna til að koma í veg fyrir alvarlegar og óafturkræfar breytingar á loftslagi og vistkerfum jarðarinnar. Heimurinn stendur frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum til að ná þessu markmiði og þarf hver þjóð að finna sína leið að settu markmiði.

Eitt er þó sameiginlegt með þeim öllum: alls staðar þurfa breytilegir og endurnýjanlegir orkugjafar að koma í stað jarðefnaeldsneytis og hámarka þarf nýtingu þeirra. Markaðslausnir gegna lykilhlutverki í hámörkun nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa, þar sem neytendur fá hagkvæmasta verð sem völ er á hverju sinni.

Virkir raforkumarkaðir eru því í lykilhlutverki við að ná loftslagsmarkmiðum heimsins - sama á við hér á landi.

Viltu vita meira?

Hér eru nokkrir áhugaverðir hlaðvarpsþættir og hægt að horfa á vorfundinn okkar þar sem markaðurinn var til umræðum.

Skipulagður raforkumarkaður

Hvernig er hægt að skapa skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi, færa orkuviðskipti landsins í samkeppnishæft og skilvirkt umhverfi sem stuðlar að verðmætasköpun og styður orkuöryggi?

Einar Snorri Einarsson og Steinunn Þorsteinsdóttir fengu Katrínu Olgu Jóhannesdóttur að hljóðnemanum til að ræða framtíðina, Elmu og orkumarkaðinn.

Er framtíðin fyrirsjáanleg?

Þær Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdarstjóri og Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi tóku fimmtán mínútu spjall um framtíðina og hvað Landsnet er að gera til að þoka okkur nær henni m.a. með virkum raforkumarkaði.

Virkir raforkumarkaðir og loftslagsmarkmiðin

Landsnet hefur gefið út nýja skýrslu sem fjallar um mikilvægi virks raforkumarkaðar til að auka skilvirkni í raforkukerfinu og stuðla að þjóðhagslegum ábata. Í skýrslunni eru helstu áskoranir markaðarins teknar saman.

Við ræddum við höfunda skýrslunnar, Jón Skafta Gestsson og Svein Guðlaug Þórhallsson, þar sem þeir fóru yfir málið og lykilatriði úr skýrslunni.

Vorfundur Landsnets 2024

ELMA

Elma orkuviðskipti er leiðandi í starfrækslu virks og skipulagðs viðskiptavettvangs fyrir raforku á íslandi og hefur það að leiðarljósi að styðja við stefnu stjórnvalda um fjölbreytt og sjálfbært orkukerfi.

Elma býður uppá rafrænan uppboðsmarkað fyrir langtímasamninga, sem er sveigjanlegt kerfi þar sem markaðsaðilar geta boðið upp til sölu eða kaups fjölbreytt vöruúrval rafmagns, sem gerir því kleift að þjóna mismunandi þörfum og áherslum markaðsaðila.

Elma er samhliða að innleiða viðskiptakerfi fyrir skammtímamarkað í samstarfi við Nord Pool, leiðandi þjónustuaðila í Evrópu. Á skammtímamarkaði gegnir Elma hlutverki miðlægs mótaðila, sem tryggir öryggi og gagnsæi fyrir alla þátttakendur. Viðskiptin fela í sér klukkustundar vöru með dags fyrirvara, sem hannaður var í samvinnu við hagsmunaaðila á orkumarkaði. Þetta kerfi tryggir aukið öryggi og gagnsæi fyrir alla markaðsaðila og mun leiða til skýrari verðmyndunar. Stefnt er að opnun skammtímamarkaðar í janúar 2025.

Elma, sem er dótturfélag Landsnets hf., styður við nýjungar og fjölbreytni í framleiðslu raforku, svo sem vind- og sólarorku, auk annarra nýjunga. Með traustum og gagnsæjum markaði eykst samkeppnishæfni Íslands til hagsbóta fyrir samfélagið.

Sendu okkur ábendingu

Senda ábendingar