Tímabundin lækkun á gjaldskrá til stórnotenda gengur til baka 1. ágúst 2020. Gjaldskrá til dreifiveitna hækkar í takt við lífskjarasamning
Gjaldskrá til stórnotendaGjaldskrá til stórnotenda var lækkuð tímabundið þann 1. júlí 2019, en ástæða aðgerðarinnar var að uppfylla bráðabirgðaákvæði raforkulaga um endurgreiðslu til stórnotenda fyrir lok árs 2020. Upplýst var á sama tíma, að gjaldskráin færi aftur í fyrra horf á öðrum ársfjórðungi 2020. Leiðréttingin nemur 10,5% og tekur gildi 1. ágúst 2020. Í frétt um tímabundna lækkun frá júlí í fyrra kom eftirfarandi fram:
„Í bráðabirgðarákvæði II í lögum um breytingu á raforkulögum frá 1. mars 2011 segir að Landsneti ber að greiða gengishagnað sem myndaðist á árunum 2008-2010 til baka til stórnotenda á næstu tíu árum, eða í lok árs 2020. Landsnet hefur verið í endurgreiðslufasa vegna þessarar eldri skuldar við stórnotendur og hefur flutningsgjaldskráin því ekki endurspeglar rétt virði í langan tíma. Vegna ofangreindra breytinga hefur endurgreiðslan gengið hægar fyrir sig en annars hefði verið sem veldur einnig þrýstingi á lækkun á gjaldskrá til stórnotenda.
Vegna ofangreindra breytinga og til að uppfylla bráðabirgðaákvæði raforkulaga er því nauðsynlegt að bregðast við með lækkun á gjaldskrá til stórnotenda í afmarkaðan tíma, eða á meðan verið er að ljúka endurgreiðslu. Gjaldskrárlækkunin mun því ganga til baka um mitt ár 2020 með hækkun á gjaldskrá til stórnotenda. Gjaldskráin mun þar af leiðandi komast í jafnvægi, verða gagnsæ og endurspegla rétt virði.“
Gjaldskrá til dreifiveitna
Tekin hefur verið ákvörðun um að hækka gjaldskrá til dreifiveitna um 2,5% frá og með 1. ágúst. Breytingin er vegna þess að taka þarf tillit til tekjumarka og tekur hún mið af lífskjarasamningnum. Á rafmagnsreikningi einstaklinga og fyrirtækja er kostnaður vegna flutnings tilgreindur sérstaklega og er gjarnan um 10% af heildarfjárhæðinni sem samanstendur af orkuverði og kostnaði við flutning og dreifingu. Sem dæmi næmi hækkunin á 10.000 kr. rafmagnsreikningi heimilis 25 krónum, eða 0,25% hækkun.
Uppbygging til framtíðar
Hlutverk okkar er mikilvægt í uppbyggingu öruggra innviða til framtíðar. Við bendum á heimasíðuna okkar, þar sem innviðaverkefni hafa verið sérstaklega merkt eftir óveðrið í desember 2019. Kerfisáætlun, áætlun um uppbyggingu á flutningskerfinu, er aðgengileg á heimasíðu okkar og á framtidin.landsnet.is.
Aðrir gjaldskrárliðir haldast óbreyttir.
Hér að neðan eru tenglar í frekari upplýsingar um gjaldskrár Landsnets
Gjaldskráin okkar:
Gjaldskrá
Frétt frá 10.júlí 2019 um breytingu á gjaldskrá stórnotenda