Við leggjum áherslu á að fyllsta öryggis sé gætt í allri starfsemi fyrirtækisins. Settar hafa verið reglur sem stuðla að öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi.

Okkar sýn er að ekkert slys verði í starfseminni og því eru öryggismál mikilvæg í okkar augum og ávalt í forgangi, enda ekkert mikilvægara en að starfsmenn komist heilir heim frá vinnu.

Sterk öryggisvitund hefur verið að festast í sessi hjá starfsmönnum Landsnets og árangur starfsmanna fer stöðugt vaxandi.
Landsnet er eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi með öryggisstjórnun sem tekur mið af alþjóðlega öryggisstaðalinum ISO 45001.

ISO 45001 staðallinn er kröfulýsing á sviði öryggis- og vinnuumhverfisstjórnunar. Fyrirtæki sem starfa skv. staðlinum þurfa sífellt að vinna að umbótum og eru líklegri en önnur til að ná árangri í sinni starfsemi.

Staðallinn á meðal annars að tryggja, að öryggis- og vinnuumhverfismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar, framkvæmdir, rekstur, val á verktökum og kaup á vöru og þjónustu vegna starfseminnar. Sömu kröfur til öryggismála eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila.

Við leggjum áherslu á heilsuvernd, persónu- og rekstaröryggi og okkur er umhugað um fólk og samfélagið sem við búum í. Við sköpum góðan slysalausan vinnustað þar sem öllum líður vel og leggja sitt að mörkum til að koma í veg fyrir slys, dauðsföll og veikindi. Við berum hvert og eitt ábyrgð á eigin öryggi og skiljum þær öryggis-, heilbrigðis- og vinnumhverfisáhættur sem fylgja starfsemi okkar. Við beitum þekktum aðferðum til að koma auga á, meta og stjórna áhættum og ef verkið er ekki öruggt finnum við örugga leið.

NSR

Neyðarsamstarf raforkukerfisins NSR, er samvinnuvettvangur vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila á Íslandi vegna vár sem steðjar að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku og / eða stórnotendum.

NSR er ekki viðbragðsaðili og tekur því ekki yfir stjórn aðgerða í vá. Stjórnun aðgerða í vá er í höndum neyðarstjórna viðkomandi aðila. Markmið þátttakenda er að veita aðstoð í vá.

Hlutverk NSR er að

  • Efla samvinnu ofangreindra aðila í og vegna vár og auka með því öryggi raforkuvinnslu, raforkuflutnings, raforkudreifingar og reksturs stórnotenda, og þar með þjóðarhag,
  • Stuðla að greiðri upplýsingamiðlun og notkun samræmdra neyðarfjarskipta í vá,
  • Treysta tengsl við Samhæfingarstöð almannavarna SST og aðra tengda aðila vegna forvarna og viðbragða í vá,
  • Stuðla að samræmingu hugtakanotkunar, verklags (viðbragðsáætlana) og skilgreininga í lögum og reglugerðum á ábyrgð og skyldum þátttakenda vegna viðbragða í vá.

Landsnet er í forsvari fyirr NSR.

Kröfur til öryggis- og umhverfismála

Fræðslumyndbönd um rofstjórn í tengivirkjum

Áherslur

  • Að skapa slysalausan vinnustað
  • Að áhættumeta alla þætti starfseminnar
  • Að ábyrgð stjórnenda sé skýr og starfsmenn viti að öryggi þeirra hefur ávallt forgang
  • Að aðbúnaður á öllum vinnustöðum miði að því að tryggja öryggi og viðhalda góðri heilsu og vellíðan
  • Að starfsmönnum sé tryggð nauðsynleg þjálfun í öryggismálum og vinnuvernd
  • Að unnið sé að stöðugum umbótum í öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmálum
  • Öll atvik sem snerta öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmál eru tilkynnt og unnið úr þeim í forvarnarskyni.
  • Landsnet er með og vinnur í samræmi við vottað öryggisstjórnunarkerfi ISO 45001
  • Öryggisstjórnunarkerfið ásamt öryggis-, heilsu- og vinnuverndarstefnunni eru rýnd árlega. Starfsmenn og aðrir hagsmunaaðilar eru upplýstir um niðurstöður og áhersluatriði
  • Öryggisnefnd sinnir öryggismálum og mótar stefnu í málaflokknum

Neyðarstjórn stýrir viðbrögðum við stærri vá. Áætlanir um viðbrögð við vá eru tiltækar og æfðar kerfisbundið.