Þann 1. júlí tók gildi ný útgáfa af tveimur netmálunum okkar og í kjölfarið hafa orðið breytingar á viðskiptaumhverfinu okkar.
Báðir netmálarnir snúa að tengingu nýrra aðila við flutningskerfið.
Annar netmálinn (D1) opnar möguleika fyrir vindmyllur til að tengjast flutningskerfinu þar sem netmálinn skilgreinir tæknilegar kröfur til vindlunda. Einnig eru skilgreindar kröfur til virkjana frá 1,5 MW og tengjast flutningskerfinu. Með þessum breytingum hefur netmálinn verið aðlagaður að reglugerð Evrópusambandsins og eru því tæknilegar kröfur til vinnslueininga á Íslandi orðnar þær sömu og í Evrópu.
Hér er hægt að kynna sér netmála D1 betur og hér er hægt að lesa sér betur til um markmið með breytingunum og skoða fylgigögn.
Hinn netmálinn (D3) er frumútgáfa um kerfisframlag. Netmálinn tekur á því hvernig kostnaður virkjana og stórnotenda við að tengjast flutningskerfinu er ákvarðaður. Hér er hægt að kynna sér netmálann betur og hér er hægt að lesa sér betur til um markmið breytinganna og skoða fylgigögn.
Netmáli er samansafn skilmála Landsnets sem varða flutning rafmagns, hönnun flutningskerfisins, rekstur og ýmis atriði viðskiptalegs eðlis. Á ensku er netmáli nefndur Grid Code.